Hræsnarar - Pólitískur réttrúnaður snýst við

Ég brosti þegar ég sá viðbrögð netverja við þessari grein. Sama fólk og bölvaði öðrum í sand og ösku fyrir nokkrum dögum hefur núna beðist afsökunar og jafnvel eytt greinum sínum.

Núna þegar pólitískur réttrúnaður hefur skipt um hlið fylgja netverjar með. Hvað er málið með svona fólk?

 

Núna kemur upp í huga einn parturinn í rannsókn á hæfileika almennings til að breyta gagnrýninni hugsun. Fólki var smalað inn í sal og látið hlusta á fyrirlestur um uppeldismál, þar sem fyrirlesarinn var sérfræðingur í málefninu og færði rök fyrir ströngum reglum í uppeldi. Eftir fyrirlesturinn var kannað hverjir voru sammála hans uppeldisaðferðum.  Seinna var fólkið látið hlýða á annan fyrirlesara sem einnig var sérfræðingur í málefninu og færði rök fyrir að gefa börnum frelsi og leyfa þeim að gera eigin mistök. Aftur var kannað hverjir voru sammála honum og hverjir ósammála.

Í ljós kom að meirihlutinn, um 80% áheyrenda sem höfðu í öðrum pörtum tilraunarinnar sýnt litla gangrýna hugsun, voru sammála báðum fyrirlesurum. Þeir voru sammála þeim fyrir meðan það var pólitísk rétthugsun og svo skiptu þeir um skoðun eftir að sá seinni hafði fengið almenningsálitið á sitt band. 

 

 

Ég bendi svo á greinina sem ég skrifaði um sandgerðisslagsmálin fyrir nokkrum dögum til að sýna mitt sjónarmið á þessu máli. Ég tek fram að það hefur ekkert breyst.

 

Takk fyrir lesturinn, góða nótt.


mbl.is Óvægin ummæli á bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmið sett upp eins og þetta tilheyri bara fortíðinni?

Mig langaði bara að benda á það að hagkerfið okkar byggir enn meira og minna á þrælahaldi.

Líttu á fötin sem þú ert í núna. Það eru yfirgnæfandi líkur á að þau séu saumuð af þrælum í suður og austur Asíu. Sömu sögu er að segja um hráefni, ss. gúmmíið í dekkjunum þínum og hráir málmar sem verða á endanum að stálinu sem styrkir steypuna í húsinu þínu og íhlutunum í bílnum þínum. 

Þetta er mest allt framleitt af þrælum. Helsti munurinn á þrælahaldi nú og á öldum áður er að í staðin fyrir að þrælunum sé haldið með líkamlegu valdi eru búnar til "skuldir" sem þeir þurfa að "vinna upp", yfirleitt allt sitt líf. Vanþekking þeirra á reglum og fjármálum er nýtt til að blekkja þá í að skrifa undir samninga á okurvöxtum með ákvæðum um að þeir vinni skuldina upp þegar þeir geta ekki borgað.

Það er unnið í 12 - 16 tíma á sólarhring og að launum fá þrælarnir svefnpláss, brauðfæði og 20-30 cent á dag upp í skuldina en  vegna "vaxta" þá hækkar hún um það bil sem því nemur á meðan. Oft eru líka unglingar og jafnvel börn að vinna fyrir skuldum foreldra sinna og fá þá gylliboð um að ef fjölskyldan leggst á eitt gætu þau öll sloppið burt innan áratugs eða svo. Vegna veikinda eða "breyttra vaxtaskilyrða" sem setja strik í reikninginn gerist þetta auðvitað sjaldan.

 

Mér var ekki skemmt í fyrirlestri í rekstrarfræði fyrir verkfræðinga fyrir nokkrum mánuðum þegar fyrirlesarinn tók dæmi um ímyndaða fataverslanakeðju og tók það bara sem gefið án nokkurra spurninga að fötin væru því næst ókeypis fyrir utan kostnaðinn við að flytja þau frá Indlandi.

Kaldhæðnin er sú að það þyrfti bara að hækka lokaverð fata um 20% eða svo til að borga þrælunum mannsæmandi laun miðað við þarlenda staðla, eða í kringum einn dollara á klukkustund.

 Það eru samt ekki alveg allar vörur í þessum flokkum framleiddar af þrælum. Zara til dæmis byggir á öðru bisnessmódeli þar sem þeir fórna valkostinum um þrælavinnu til þess að geta framleitt fötin í Evrópu, mun nær markaðnum, og geta þannig fylgt tískunni mun hraðar en önnur fyrirtæki. IKEA sömu leiðis reynir að rannsaka alla byrgja sína og passa að ekkert sé framleitt í þrælavinnu en auðvitað er það næstum ógerlegt því keðjan liggur mjög langt aftur á bak og skilur oft litlar slóðir eftir sig.

 

Takk fyrir lesturinn.


mbl.is Flúði til Íslands undan þrældómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt skólastýrunni að kenna! Klárlega vanhæf.

Langt síðan ég hef kíkt inná þessa síðu, en jæja.

 

Hérna eru nokkrar tilvitnanir frá netverjum:

"Ég held líka að þarna hafi einhver starfsmaður skólans ekki verið á réttum stað á vaktinni sinni."

 "Skólastjórinn vildi þöggun og það er skelfilegt."

"Mér finnst högg og spark bardagaíþróttir( box,kickbox,karate, taekwando) miklu tvíeggjaðri..."

"...ætti að banna honum að stunda þessa íþrótt."

"Er hún hæf?"

"og að sjálfsögðu hefur gaurin notað tækni ur nefaleika íþróttinni ekki spurnig."

"Skólastýran ætti að finna sér annað djobb"

 

Það er eiginlega fáránlegt að ég geti varla fundið í fljótu bragði netverja sem tala ekki í þessa áttina. Allir vilja kenna öðrum um, fá fram harðari reglur og svo framvegis.

 --------------

Ég tala af reynslu þegar ég fullyrði að svona alvarleg slagsmál koma fyrir nokkrum sinnum á ári í hverjum einasta grunnskóla landsins.  Á mínum grunnskólaárum gerðist ég meðal annars sjálfur sekur um að brjóta tönn í öðrum nemanda. Svona gerist og aukið eftirlit og réttindaskerðing nemenda er ekki á leiðinni að koma í veg fyrir þetta. Við getum litið á suma bandaríska grunnskóla sem dæmi um afleiðingar frekari reglna og réttindaskerðinga.

Aumingja skólastjórinn er auðvitað sjokkeruð yfir athyglinni sem þetta mál hefur fengið. Þótt svona atvik komi upp oft í hverjum einasta grunnskóla lenti þetta í fjölmiðlum og hún höfð að skotmarki. Eðlilega er hún ekki sátt.

-------------

 Svo þegar menn eru búnir að sletta úr pytti reiði sinnar yfir skólastýruna kemur að boxinu. Það er eins og fólk haldi að það að strákurinn æfði box hafi eitthvað með árásina að gera. Halda menn virkilega að ef hann kynni ekki að boxa hefði árásinni bara verið hætt og fórnarlambið fengið að labba í burtu?

-------------

Svo er það einna merkilegast, að allstaðar er talað um þetta eina tilvik eins og það sé allt sem skipti máli. Að líkamleg meiðsli fórnarlambsins í þessari einu árás sé það sem þarf að sporna gegn. Einelti er langtíma vandamál og skaðinn sem hefur verið unninn í gegnum tíðina á andlega heilsu fórnarlambsins er svo langt um verri en brotin tönn og tímabundinn heyrnarskaði. Fórnarlömb eineltis enda oft uppi andlega sködduð fyrir lífstíð. 

 

Takk fyrir.

 


mbl.is Blóðug slagsmál skóladrengja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða afleiðingar hefur þetta?

Staðan eins og er er þessi: Við sorphirðuna í Reykjavíl starfa 57 manns eftir því sem ég best veit. Af þeim eru 3 í stjórnun og skrifstofustörfum. Yfirbyggingin er þar með rosalega lítil og ekki eru þessir þrír á neinum ofurlaunum.

Eins og sést á þessum tölum er þetta mjög skilvirkt rekið.  Hvaða hagræðingu hefur einkareksturinn tækifæri til að gera? Og við verðum að hafa það í huga að einkarekstur er í eðli sínu ekki fullkomlega skilvirkur þar sem hagnaður og hagnaðarvon rekur hann áfram. Svarið er augljóst, minnka þjónustuna. Eins og sést í sveitafélögum er einkareksturinn um 10% ódýrari það fer fyrir lítið þegar þjónustan er borin saman.

Þá bendi ég á að það þarf starfsmenn líka til að sjá um samninga við einkaaðila og eftirlit með því hvort þeir vinni vinnuna sína. Og einhvernvegin grunar mig að þeir starfsmenn plús stjórnunar- og skrifstofumenn plús hagnaður fyrir einkaaðilann sé hærri upphæð en þessir 3 núverandi starfsmenn taka fyrir að sjá um yfirbygginguna á þessu.

Svo til gamans má nefna að ef við miðum við að óbreyttir starfsmenn fái að meðaltali 180 þúsund í mánaðarlaun og stjórnendurnir 300 þúsund ættu laun borgarstjóranna að nægja fyrir launakostnaðinum við 47% af starfsemi sorphirðunnar.

 

Ég styð yfirleitt útboð á opinberri þjónustu, en þó ekki í þessu tilviki. Að mínu mati á ekki að bjóða út ef:
a) Rekstur hins opinbera á starfseminni er þegar mjög skilvirkur
b) Sambærileg útboð annarsstaðar hafa ekki sýnt betri niðurstöður
c) Það er góður möguleiki að illa verði staðið að útboðinu

Allt þrennt á við um þetta tilvik. Það er eins og sumir í borgarstjórnarflokki sjálfstæðisflokksins haldi að útboð sé gott útboðsins vegna. Skiptir ekki máli hver niðurstaðan muni verða.

 
Sumir flokkar ráðist í útboð og einkavæðingar eins og þeim sé borgað fyrir það. Auðvitað eru gríðarlegir peningahagsmunir í húfi. Það bætir ekki úr skák að sumir flokkar leggist mjög harkalega á móti því að bókhald stjórnmálaflokka verði opnað

 

Að öðru málefni: Ég rak upp stór augu í vinnunni í dag þegar ég var að lesa fréttablaðið og sá að borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins reyndi að láta reka móður vinar míns. Ástæðan er sú að þessi borgarfulltrúi var að vinna við hennar svið án samráðs við hana. Hún sá svo að þetta var ekki sterkur leikur hjá borgarfulltrúanum, mótmælti og reyndi að leiðbeina. Borgarfulltrúinn reynir þá að segja henni upp því borgarfulltrúinn þekkir þessi mál auðvitað miklu betur en manneskjan sem vinnur við að stjórna þessu og er "nákvæmur og góður sviðsstjóri og einn af bestu starfsmönnum borgarinnar" að mati borgarstjóra.
Svipuð mál varðandi starfsmannahaldið þarna í ráðhúsinu hafa verið að skjóta upp kollinum í allt sumar.

 


mbl.is Ruslakarlar öskureiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir ættu bara að hætta að væla og vinna vinnuna sína

Þetta er viðhorf sem er rosalega algengt í kringum mig. Fólk er stundum svo miklir eiginhagsmunaseggir að það hálfa væri nóg. Of mörgum er nákvæmlega sama svo lengi sem það hefur ekki áhrif á eigin kjör. Verst er nú samt með þá sem stilla sér upp á móti þeim sem berjast fyrir kjörum sínum.

 

Frá stelpu nokkurri, sem ég kalla víst vinkonu mína, kemur tilvitnun vikunnar: "Efnahagurinn í Frakklandi varð illa úti því fólk fór stanslaust í verkföll og vann ekki vinnuna sína."   Sama manneskja er á þeirri skoðun að stéttafélög séu slæm fyrir almannahagsmuni þar sem þau geri vinnuveitendum svo erfitt fyrir. 

Auðvitað veit hún að kommarnir vinstrimennirnir berjast fyrir meiri reglugerðum, höftum á atvinnurekstri og sóun á almannafé, á meðan sjálfstæðisflokkurinn leitast við að gefa öllum tækifæri til að njóta sín, stjórna sínum eigin peningum án þess að óvinnandi óduglegt fólk taki það af þeim, stofna fyrirtæki og eignast stórt hús með dýrum bíl í bílskúrnum fyrir peninginn sem ríkið rændi ekki af henni.

Önnur stelpa, meðlimur ungra sjálfstæðismanna, er mun hreinskilnari. Hún viðurkennir fúslega að henni er nákvæmlega sama um fátæka fólkið á Íslandi, Pólverjana og allt það. Hún stefnir bara á það að verða rík og skítt með alla hina. Og góð leið til að verða ríkur er einmitt að geta okrað á fólki og haft vinnuafl á lágum launum. Hún fær amk prik í hattinn fyrir hreinskilni.

 

Ég er viss um að þær báðar hefðu haft gott að því að alast upp hjá einstæðri móður í Bandaríkjunum á kennaralaunum sem vinnur 10 tíma á dag og ætti samt ekki efni á háskólanámi fyrir þær, enda er þar í gildi kerfi þar sem "duglega" fólkið er ekki látið borga til þeirra sem lögðu sig ekki fram í lífinu og stéttafélög eru ekki að þvælast jafn mikið fyrir atvinnurekendum. Svo myndu þær menntunarlausar enda uppi í samskonar stöðu sjálfar seinna í lífinu og svo koll af kolli.

Það vill svo til að ég bý akkúrat í þannig aðstöðu, en ég á það vinstrimönnum að þakka að ég er á leiðinni í háskóla í haust og verð væntanlega verkfræðingur í náinni framtíð. 


mbl.is Hjúkrunarfræðingar fóru aftur á fund ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf að gera til að vekja athygli fólks?

Hver man eftir friðsamlegu mótmælunum þegar einhverjir mannréttindasinnar stóðu með skilti fyrir utan alþingishúsið og buðu fólki svo að prófa pyntingaaðferð sem einhver stjórnvöld einhversstaðar notuðu á þá sem töluðu gegn valdinu? Ekki ég að minnsta kosti. Get ekki einu sinni nefnt hvaða stjórnvöld var verið að tala um eða hvað það mál snerti Ísland.

 

Mig rámar nú samt eitthvað í mótmæli Falun Gong(sp?) liða sem voru að mestu leiti friðsamleg, en lengra en það nær það ekki. Og var hlustað á þá? Nei.

 

Mér finnst alltaf jafn fyndið þegar fólk kallar trukkamótmælin barnaleg, ofstækisfull og svo þar eftir götunum og bendir á að það sé mikilvægur réttur allra til að geta mótmælt en það á að gera það friðsamlega þar sem það truflar engan.
Hvað er takmarkið með mótmælum? Jú, það er að vekja athygli á málstað sínum og jafnvel knýja til einhverra breytinga. Er það mögulegt þegar það er ekki einu sinni tekið eftir manni?

 

Man kannski einhver eftir því þegar trukkakallarnir töluðu við Geir fyrir 3 árum og kröfðust þess friðsamlega með umræðu um að eitthvað verði gert. Hélt ekki. 

 

Þetta voru mjög heiftarleg mótmæli. Lögregla beitir táragasi og piparúða, ber mótmælendur með kylfum og notar aðrar þesskonar aðferðir sem hún býr yfir. Mótmælendur grýta eggjum og steinum í átt að lögreglu. Það er augljóst að þetta ætti ekki að eiga sér stað í einu ríkasta samfélagi heims.
En er þá vandamálið að fólk fari yfir strikið og geri svona hluti? Nei, að mínu mati á að fara að rót vandans. Vandamálið liggur í því að fólk hafi ástæðu til að fara svona heiftarlega yfir strikið.

 

 

PS: Hvernig stendur nú á því að í einu ríkasta samfélagi heims hafi góður vinur minn, 20 ára nemi og afgreiðslumaður, ekki efni á að fara til tannlæknis og láta laga erfiða skemmd áður en hún gerir meiri skaða? Greinilega eru öll bein Íslendinga tryggð nema þau sem eru í munninum.


mbl.is Reynt að fjarlægja bíl Sturlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðreyndirnar um nýan meirihluta

Nógu margir hafa komið með blogg um tilfinningalegar skoðanir sínar á þessum málum öllum þannig að hér ætla ég bara að vísa í staðreyndir. Dæmi hver eins og hann sér, enda mun tilfinningalegt bull í mér ekki sannfæra neinn um neitt.

 

 

Skv. könnun Fréttablaðsins, framkvæmd 23. Janúar með 600 manna úrtaki völdu af handahófi: 

74,1% borgarbúa eru á móti nýjum meirihluta.
5,5% borgarbúa styðja Ólaf F. Magnússon borgarstjóra.

Tveim dögum eftir að Dagur B. Eggertsson tók við borgarstjórastólnum studdu 41,3% hann sem borgarstjóra.
Síðastliðinn miðvikudag studdu 56,9% hann sem borgarstjóra.

Ef gripið yrði til kosninga nú í borgarstjórn fengju flokkarnir eftirfarandi fylgi:

Samfylking: 42,3%
Sjálfstæðisflokkur: 34,8%
Vinstri grænir: 14,0%
Framsókn: 4,9%
Frjálslyndir: 2,9%

Samfylking fengi 7 borgarfulltrúa en Vinstri grænir 2. Sjálfstæðisflokkurinn fengi restina en hvorki Framsókn né Frjálslyndir kæmu manni inn. 

 

 

 

Fyrsta stóra mál nýs meirihluta er kaup á húsunum við Laugaveg 4 og 6, eins og tenging við þessa færslu sýnir.

 

Kostnaður við kaup á húsunum er 580 milljónir samkvæmt "öruggum heimildum" fréttablaðsins.
Gróðinn mun fara til fyrirtækisins Kaupangur ehf.
Búist er við að kostnaður við að gera húsin upp hlaupi á hundruðum miljóna.
Ef áætlað er að kaup lóða að viðbættum kostnaði við að gera húsin upp sé 800 milljónir þá ert þú, ef þú ert Reykvíkingur, að borga 6.796 krónur í þetta verkefni.
Ef gengið er úr frá spá moggans um að tapið verði aðeins 236,4 milljónir króna eftir sölu eignanna ert þú aðeins að borga 2.008 krónur.

 

 

Erfitt er að heyra skoðun Sjálfstæðismanna á málinu, en þeir virðast lang flestir styðja nýann meirihluta og eigin flokk í þessu máli. (Afsakið að ég nennti ekki að vitna í heimildir með þessa staðreynd, en ef enhver véfengir hana þá mun ég gera það)

 

Ef við hinsvegar kíkjum aftur í tíman áður en nýr meirihluti var myndaður kemur þetta í ljós:

11. Janúar síðasliðinn senti SUS frá sér yfirlýsingu: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/01/11/sus_laugavegshusin_verdi_ekki_fridud/
Þar kemur meðal annars fram: "Samband ungra sjálfstæðismanna hvetur menntamálaráðherra til að hafna ósk Húsafriðunarnefndar um friðun húsanna á Laugavegi 4-6, segir í tilkynningu frá sambandinu í kvöld.

15. Janúar skrifar borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, þetta: http://thorbjorghelga.blog.is/blog/thorbjorghelga/entry/415072/
Þar kemur meðal annars fram: "Eru landsmenn allir tilbúnir til að láta ríkið greiða skaðabætur úr sjóði skattgreiðenda upp á hundruði milljóna fyrir Laugaveg 4-6?"

Svona má lengi halda áfram en ég held að púnkturinn sé kominn til skila.

 

Ég hvet fólk svo til að muna þetta eftir rúmlega tvö ár þegar kosið verður í borgarstjórn á ný.

 

Takk fyrir. 


mbl.is Borgin kaupir Laugaveg 4 og 6
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunblaðið lýgur, almenningur gleypir við

Á mbl.is má sjá viðhengda grein skrifaða í gær sem ber fyrirsögnina "Fjórtánda frjálsasta ríkið". Ég ákvað að kanna heimildir þessarrar staðhæfingar enda skólabókardæmi um hálfann sannleik í fjölmiðlum sem er því miður allt of algengur.

Mér er mjög umhugsað til ákveðinnar ráðstefnu sem ég fór á í HÍ á vegum félagsins Res Extensa, sem er félag sem snýst um að efla gagnrýna hugsun, og einn fyrirlesara sem útskýrði hvernig "hálfur sannleikur" kæmi fram í fjölmiðlum. Þá sérstaklega í sambandi við orðin "rannsóknir sýna", "vísindalega sannað" eða, eins og í þessu tilviki að könnun sýni fram á einhvern "sannleik" sem blaðið vill koma til skila. Eftir að hafa séð hvernig þessi grein lyktaði af svona hálfsannleik sem "sýnir" hversu góð hægristefnan er, og vitandi það að mogginn er hart hægririt, þá ákvað ég að kanna hvað liggur á bakvið þessar kenningar.

Aðal umkvörtunarefnið er að morgunblaðið segir "frelsi", með fyrirsögninni "Fjórtánda frjálsasta ríkið", en það sem við erum raunverulega að tala um er einhverskonar blanda af hversu frjáls markaðurinn er, en líka hversu langt til hægri stefna viðkomandi ríkisstjórnar er. Ég undirstrika líka að það eru tveir mismunandi hlutir, eins og ég ætla að gera tilraun til að rökstyðja hér að neðan: 

 

Þessi könnun sem mbl.is fjallar svo frjálslega um, er gerð af Wall Street Journal og Heritage Foundation. Þarna eru lönd tekin og gefin einkunn fyrir nokkra þætti, og svo er þeim raðað í verðlaunasæti eftir meðaltali þessara þátta. Sumir þættirnir snúast klárlega um efnahagslegt frelsi, en aðrir aðeins um umsvif ríkisstjórnarinnar og aðra hluti sem skilja fremur milli hægri og vinstri en að hafa eitthvað að gera með efnahagslegt frelsi. En eigið mat er betra en eitthvað blaður í mér svo hér er listi yfir þessa þætti:

 

1. Bisness frelsi: Hversu erfitt það er að koma hugmyndum í framkvæmd, stofna fyrirtæki etc etc. - Klárlega góður mælikvarði á frelsi markaðarins og kemur hægri og vinstri ekkert við.

2. Viðskiptafrelsi: Hversu miklar reglugerðir og hömlur liggja við hlutum eins og innflutningi og útflutningi og hluti eins og mjólkurkvótann og þessháttar. - Klárlega góður mælikvarði á frelsi markaðarins og kemur hægri og vinstri ekkert við.

3. (Tekju)skattar: Hér bregst Wall Street Journal og co. með að bendla innkomuskatta við viðskiptalegt frelsi. Má hér nefna lönd eins og Danmörku sem eru bestu lönd í heimi þegar kemur að frelsi atvinnulífsins og markaðar, en hafa einnig mestan innkomuskatt í heimi. Meir um það neðar í færslunni. - Kemur ekkert frelsi markaðar við heldur bara hægri og vinstri.

4. Stærð ríkisstjórnar: Hér kemur annað dæmi um hvernig sú sögn að frelsi markaðar sé hægritengt, þrátt fyrir að raunveruleikinn sýni annað, hefur fest rætur og setur sinn svip á þessa könnun. - Kemur ekkert frelsi markaðar við en aðeins hægri og vinstristefnum.

5. Peningalegt frelsi: Verðbólga, (ó)stöðugleiki, ríkisafskipti af verðlagi. - Góður mælikvarði á frelsi markaðar og kemur hægri og vinstri ekkert við.

6. Fjárfestingafrelsi:  Reglugerðir varðandi erlenda gjaldmiðla, mótstaða við erlendar fjárfestingar, t.d. það að aðeins 25% íslensks sjávarútvegs má vera í erlendri eigu. - Lýsir algerlega frelsi markaðar en kemur hægri og vinstri ekkert við.

7. Fjármagnsfrelsi: Frelsi í fjármagnsviðskiptum, hvort bankar séu einkareknir eða ekki. - Kemur í raun hvorki frjálsum markaði né hægri og vinstri við. 

8. Eignarréttur: Hversu vel varðar eignir þínar eru fyrir ríkisstjórn og dómsstólum. - Kemur mest almennu frelsi við frekar en efnahagslegu frelsi eða hægri og vinstri stefnum.

9. Spilling: Gegnsæi í stjórnkerfinu og almenn spilling. - Kemur líka hvorugum hlut við.

10.  Vinnureglur: Reglugerðir um starfsmenn og laun, styrkur stéttafélaga. - Kemur lítið efnahagsfrelsi við en frekar mannréttindum og almennu frelsi, og svo auðvitað hægri og vinstri.

 

Í lokin ætla ég að koma með samanburð á Íslandi, mið-hægri sinnuðu landi með óþarflega mikilli forræðishyggju, og Svíþjóð, vinstrisinnaðasta landi heims:

 

1. Bisnessfrelsi:  Ísland 94,5%, Svíþjóð 94,8% - Aðeins auðveldara að koma hugmyndum í framkvæmd og stunda rekstur í Svíþjóð en á Íslandi, en munurinn er hverfandi.

2. Viðskiptafrelsi: Ísland 85%, Svíþjóð 86% - Sömu sögu er að segja með viðskiptafrelsið.

3. (Tekju)skattar: Ísland 73,6%, Svíþjóð 32,7% - Öflugasta menntunar, velferðar og heilbrigðiskerfi í heimi er ekki ókeypis, en það kemur markaðsfrelsi bara ekkert við.

4. Stærð ríkisstjórnar: Ísland 46,3%, Svíþjóð 3,9% - Öflugt velferðarkerfi í Svíþjóð, og það er stórt og dýrt í rekstri, gamlar fréttir. En hvað kemur það frjálsum markaði við?

5. Peningalegt frelsi: Ísland 74,8%, Svíþjóð 82,8% - Bíddu... vinstriríkið bara að skora hærra hvað varðar peningalegt frelsi? Ætti kannski einhver að segja sjálfstæðismönnum frá þessu?

6. Fjárfestingafrelsi: Ísland 60%, Svíþjóð 80% - Sömu sögu að segja hér.  Ef ég væri fjárfestir þá væri frelsi mitt til að stunda mitt fag og koma með hagsæld til þjóðarinnar mun betur gætt í Svíþjóð en hér.

7. Fjármagnsfrelsi: Ísland 70%. Svíþjóð 80% - Eins og áður.

8. Eignarréttur: Ísland 90%, Svíþjóð 90% - Ekki eins og þetta komi markaðsfrelsi mikið við. 

9. Spilling: Ísland 96%, Svíþjóð 92% - Svíþjóð má bæta sig í að gera kerfið gegnsærra, en þetta kemur bara frjálsum markaði ekkert við, né hægri og vinstristefnum.

10. Vinnureglur: Ísland 75%, Svíþjóð 62% - Reglugerðaflækjur eru frekar leiðinlegar bæði á Íslandi og í Svíþjóð, en það sem skilur þjóðirnar að er að það eru sterkari réttindi starfsmanna og meira gert til að koma í veg fyrir að atvinnurekendur níðist á starfsmönnum sínum eða beiti þá misrétti. En gallinn er að þetta kemur frjálsum markaði bara lítið við. 

 

Og þarna ákvað ég að bera saman við vinstrisinnaðasta ríki heims, en flest vinstriríki hafa enn frjálsari markað en Svíþjóð. Þar má nefna Danmörku til dæmis, sem skoraði 11. sæti í þessari könnun jafnvel þótt það hafi mjög fá stig fengið frá hægripörtunum, bara matinu á frelsi markaðar. 

 

Jæja, eins og nöldrið í mér sé ekki nóg til að sannfæra hægrimenn um að frjáls markaður er ekki bara þeirra megin við línuna, þá má nefna að Kaupþing er alvarlega að íhuga að færa höfuðstöðvar sínar til Hollands, eins vinstrisinnaðasta ríki heims, og gera upp í þarlendri mynt undir þarlendu stjórnkerfi, eins og kom fram á forsíðu Fréttablaðsins 17. janúar. Ástæðan er aðallega fólgin í peningalegu frelsi þar í landi.

Takk fyrir lesturinn. Góða nótt.


mbl.is Fjórtánda frjálsasta ríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm þróun!

Eða kanski meira viðeigandi að kalla þetta hæga þróun. Fyrst núna í byrjun ársins 2008, og það aðeins í *einni* sundlaug í einu af frjálsustu ríkjum heims, er konum ekki bannað að fara út í laugina án þess að hylja brjóstin. Á meðan halda bannistar um allann heim áfram að berjast á móti fóstureyðingum, hjónaböndum samkynhneigðra, litum klæða barna á fæðingardeild, frelsi kvenna til að ráða yfir eigin líkama og rétti fyrirtækja til að hafa þá sem þau vilja í stjórn óháð kyni svo fátt eitt sé nefnt.

Ekki það að ég megi einu sinni skoða fréttir frá þessum viðburði. Ég er ekki orðinn 18 ára og fréttamyndir sem innihalda ber brjóst gætu því "sært blygðunarkennd" mína og eru því ritskoðaðar.

 

Þetta er fyrsta málefnalega færslann inná þetta blog og ég vænti þess að fleiri í svipuðum dúr muni fylgja. 


mbl.is Ber brjóst leyfð í Sundsvall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja nú sleppi ég mér!

Eins tilgangslaust og blogg nú er þá er ég ekki lengur fær um að bæla niður þörfina til að tjá mig á netinu um hitt og þetta fyrir báðar manneskjurnar sem nenna að lesa það. Ég, Karl Emil Karlsson, hef hér með látið undan og stofnað bloggsíðu.

Takk fyrir mig =)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband